Norðmenn eru á loðnuveiðum við austanvert landið og miðar vel. Þegar hafa veiðst 54 þúsund tonn og því aðeins fimm þúsund tonn eftir af kvóta þeirra í íslenskri landhelgi. Tvö íslensk skip eru lögð af stað austur en síðar í dag kemur í ljós hvort sjómenn hafa samþykkt nýjan kjarasamning.
Skipin tvö sem um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson og Hákon EA. Ef samningurinn verður samþykktur verður væntanlega áhöfn skipanna flogið austur þannig að hægt verði að hefja loðnuveiðar sem fyrst.
Skrifað var undir kjarasamning sjómanna um miðja nótt aðfaranótt laugardags og lýkur atkvæðagreiðslu um samninginn á flestum stöðum um miðjan dag og talningu klukkan 20 í kvöld.
Sjávarútvegsráðherra hefur á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar ákveðið í liðinni viku að auka heildarafla íslenskra skipa á loðnu í alls 196.075 tonn á þessari vertíð. Áætlað heildarverðmæti loðnuaflans er um 17 milljarðar króna.
Fyrr í vetur hafði íslenskum skipum verið úthlutað rúmum 12 þúsund tonnum þannig að aukningin er rúmlega sextánföld, að því er segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða verður 5,3% aflans úthlutað á skiptimarkaði, alls 10.392 tonnum.
Hafrannsóknastofnun segir í tilkynningu, að eins og kunnugt sé hafi mælingar á loðnustofninum í september/október 2016 bent til þess að veiðistofninn á vertíðinni 2016/2017 væri lítill og í samræmi við samþykkta aflareglu hafi verið ákveðið að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar í janúar/febrúar 2017 gæfu tilefni til endurskoðunar.
Hafrannsóknastofnun segir enn fremur, að mælingar á stærð loðnustofnsins 11.-20. janúar hafi sýnt að stofninn sé töluvert stærri en mælingar haustsins hafi bent til og ráðlagði Hafrannsóknastofnun 25. janúar að heildaraflamark vertíðarinnar yrði 57 þús. tonn.