Langt komnir með loðnukvótann

Hákon EA.
Hákon EA. Vefur útgerðarfélagsins Gjögur

Norðmenn eru á loðnuveiðum við austanvert landið og miðar vel. Þegar hafa veiðst 54 þúsund tonn og því aðeins fimm þúsund tonn eftir af kvóta þeirra í íslenskri landhelgi. Tvö íslensk skip eru lögð af stað austur en síðar í dag kemur í ljós hvort sjómenn hafa samþykkt nýjan kjarasamning.

Skipin tvö sem um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson og Hákon EA. Ef samningurinn verður samþykktur verður væntanlega áhöfn skipanna flogið austur þannig að hægt verði að hefja loðnuveiðar sem fyrst.

Skrifað var undir kjarasamning sjómanna um miðja nótt aðfaranótt laugardags og lýkur at­kvæðagreiðslu um samninginn á flest­um stöðum um miðjan dag og talningu klukkan 20 í kvöld.

Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra hef­ur á grund­velli til­lagna Haf­rann­sókna­stofn­un­ar ákveðið í liðinni viku að auka heild­arafla ís­lenskra skipa á loðnu í alls 196.075 tonn á þess­ari vertíð. Áætlað heild­ar­verðmæti loðnu­afl­ans er um 17 millj­arðar króna.

Fyrr í vet­ur hafði ís­lensk­um skip­um verið út­hlutað rúm­um 12 þúsund tonn­um þannig að aukn­ing­in er rúm­lega sex­tán­föld, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­inu.

Sam­kvæmt lög­um um stjórn fisk­veiða verður 5,3% afl­ans út­hlutað á skipti­markaði, alls 10.392 tonn­um.

Loðnu­stofn­inn stærri

Haf­rann­sókna­stofn­un seg­ir í til­kynn­ingu, að eins og kunn­ugt sé hafi mæl­ing­ar á loðnu­stofn­in­um í sept­em­ber/​októ­ber 2016 bent til þess að veiðistofn­inn á vertíðinni 2016/​2017 væri lít­ill og í sam­ræmi við samþykkta afla­reglu hafi verið ákveðið að eng­ar veiðar yrðu stundaðar nema mæl­ing­ar í janú­ar/​fe­brú­ar 2017 gæfu til­efni til end­ur­skoðunar.

Haf­rann­sókna­stofn­un seg­ir enn­ frem­ur, að mæl­ing­ar á stærð loðnu­stofns­ins 11.-20. janú­ar hafi sýnt að stofn­inn sé tölu­vert stærri en mæl­ing­ar hausts­ins hafi bent til og ráðlagði Haf­rann­sókna­stofn­un 25. janú­ar að heild­arafla­mark vertíðar­inn­ar yrði 57 þús. tonn.

mbl.is