„Tæpt á hvorn veginn sem það fer“

Skip við bryggju í Neskaupstað. Mynd úr safni.
Skip við bryggju í Neskaupstað. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Þriðji og síðasti kynn­ing­ar­fund­ur stétt­ar­fé­lags­ins Afls á kjara­samn­ingi sjó­manna hófst klukk­an 16 í grunn­skól­an­um í Nes­kaupstað. Sverr­ir Mar Al­berts­son, fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, seg­ir aðsókn­ina góða á fundi þess í dag og í gær.

„Við erum búin að halda tvo aðra fundi og það hafa verið full­ir sal­ir í báðum til­vik­um,“ seg­ir Sverr­ir í sam­tali við mbl.is.

Bæt­ir hann við að bú­ist sé við að kjör­sókn verði í kring­um 70 pró­sent, en erfitt sé að segja það með vissu enda greiði sum­ir fé­lags­menn at­kvæði sín ann­ars staðar á land­inu.

Fé­lög­in fá ekki að vita úr­slit sinna kosn­inga

Sýslumaður­inn á Aust­ur­landi mun telja at­kvæði fé­lags­manna og senda niður­stöðuna til embætt­is rík­is­sátta­semj­ara, þar sem hún fer inn í heild­arniður­stöður at­kvæðagreiðslunn­ar á landsvísu. Þannig verður ekki gerð grein fyr­ir niður­stöðum hvers fé­lags fyr­ir sig.

„Við fáum aldrei að vita hvernig þetta fór hjá okk­ur,“ seg­ir Sverr­ir.

Spurður hvort hann telji að samn­ing­ur­inn verði samþykkt­ur seg­ir hann að tví­sýnt sé um það.

„Hann var mjög harður fund­ur­inn á Reyðarf­irði. Tals­vert um að menn væru ekki sátt­ir. En hvað kem­ur upp úr kass­an­um, það vit­um við aldrei.“

Býstu við því að samn­ing­ur­inn verði jafn­vel felld­ur?

„Yfir landið? Ég á ekki von á því. En það verður tæpt, á hvorn veg­inn sem það fer, miðað við það sem maður heyr­ir.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina