Byrjað er að telja greidd atkvæði í atkvæðagreiðslu sjómanna um þann kjarasamning sem samninganefndir þeirra og SFS samþykktu aðfaranótt laugardags.
Eins og greint var frá fyrir stundu hafa viðmælendur mbl.is á staðnum tekið í sama streng og margir þeir forsvarsmenn sjómanna sem blaðamenn mbl.is hafa tekið tali í dag, tvísýnt sé um niðurstöður kosninganna.
Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir á níunda tímanum, en talningin fer fram í húsakynnum ríkissáttasemjara, eða í Karphúsinu svokallaða.
„Ég trúi því að menn nái kjarasamningi og að við verðum með samning, en ekki lög, yfir okkur næstu tvö árin,“ sagði Konráð Þorsteinn Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við mbl.is fyrr í dag.
Ef samningurinn verður felldur, segir hann að lítið muni gerast.
„Annað en það að Þorgerður Katrín mun leggja fram frumvarp um lög á sjómenn,“ sagði Konráð og bætti við, aðspurður, að deiluaðilar muni líklega ekki koma saman aftur í bráð, verði samningurinn felldur.
„Það er ekkert til að hittast yfir. Við vorum komin alveg í botn í þessu máli. Það er ekkert meira í boði.“