Landfestar leystar

Skipverjar á Barða NK áður en lagt var úr höfn …
Skipverjar á Barða NK áður en lagt var úr höfn í nótt. Ljósmynd/Hákon Ernuson

Þegar fyr­ir lá í gær­kvöldi að sjó­menn höfðu samþykkt kjara­samn­ing og verk­falli væri lokið héldu skip Síld­ar­vinnsl­unn­ar til veiða hvert af öðru og lá mörg­um mikið á. Börk­ur og Beit­ir héldu til loðnu­veiða strax upp úr klukk­an 10 og um svipað leyti hélt Bjarni Ólafs­son á loðnumiðin.

Ísfisk­tog­ar­arn­ir Vest­manna­ey og Ber­gey losuðu land­fest­ar upp úr klukk­an 11, Gull­ver um miðnætti og Barði um klukk­an eitt eft­ir miðnætti. Frysti­tog­ar­inn Blæng­ur mun leggja af stað frá Ak­ur­eyri til Nes­kaupstaðar í kvöld en lokið er mikl­um end­ur­bót­um á skip­inu sem hafa farið fram í Póllandi og á Ak­ur­eyri. 

Í morg­un voru þegar farn­ir að ber­ast afla­frétt­ir af loðnu­skip­un­um. Börk­ur fékk 600 tonn í fyrsta kasti og Beit­ir 1.000 tonn en þeir eru að veiða mjög grunnt vest­ur af Hornafirði. Pol­ar Amar­oq er vænt­an­leg­ur til Nes­kaupstaðar síðar í dag með 500 tonn af loðnu til mann­eld­is­vinnslu en einnig er fryst um borð í skip­inu.

Stefnt er að því að vinnsla í fisk­vinnsl­unni á Seyðis­firði hefj­ist á miðviku­dag og víst er að fiski­mjöls­verk­smiðjan í Nes­kaupstað hefji vinnslu í dag og verk­smiðjan á Seyðis­firði mjög fljót­lega. 

mbl.is