Mikill léttir fyrir Grimsby

Martyn Boyers er vel kunnugur Íslandi og íslenskum fiski.
Martyn Boyers er vel kunnugur Íslandi og íslenskum fiski. Ljósmynd/Grimsby fish market

„Nú þegar verkfallið er búið fáum við vonandi meira af fiski. Þetta er mikill léttir en það kom á óvart hversu lengi við þurftum að bíða. Ég veit að þetta hefur haft meiri áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi en þetta hefur verið einstaklega óheppilegt fyrir Grimsby,“ segir Martyn Boyers, for­stjóri Grims­by fish mar­ket. 


Grims­by fish mar­ket sér um upp­boð á fersk­um fiski og í gegnum tíðina hefur mik­ill meiri­hluti, um 75%, verið veidd­ur af ís­lensk­um sjó­mönn­um og seg­ir Martyn að Grims­by, stundum nefndur Grímsbær, sé stærsti viðtak­andi ís­lensks sjáv­ar­fangs. 

„Gámurinn fer frá Reykjavík á fimmtudegi þannig að við fáum fyrsta farminn í næstu viku. Það verða þorskur, ýsa og rauðspretta. Það er mikil spurn eftir rauðsprettu á þessum árstíma því hún er í mun betra ástandi á íslensku miðunum en í Norðursjó.“ 

Erfitt að endurnýja markaðsleiðir 

Greint var frá því að Martyn hefði þurft að segja upp fimmtungi starfsmanna sinna í febrúar vegna verkfallsins. Hann segir að erfitt gæti reynst að endurheimta sum viðskiptasambönd í fljótu bragði. 

„Ég held að fyrirtæki sem kaupa yfirleitt fisk frá Íslandi hafi leitað annarra leiða. Þegar þú finnur nýjan seljanda og viðskiptasambandið gengur vel þá ferðu ekki endilega aftur í sama horf. Það gæti því tekið smá tíma fyrir íslenska sjávarútveginn að endurnýja markaðsleiðirnar en ég held að það verði komið í eðlilegt horf til lengri tíma litið,“ segir Martyn. Hann bætir við að óánægja sjómanna með samninginn sé áhyggjuefni fyrir erlenda kaupendur. 

„Þetta hefur áhrif á viðhorf til framboðs á íslenskum fiski og síðan skilst mér að samningurinn hafi verið naumlega samþykktur þannig að margir sjómenn eru greinilega óánægðir. Það er áhyggjuefni og dregur úr stöðugleika íslenska sjávarútvegarins.“ 


mbl.is