„Skýrari verður hótun í garð forystumanna sjómanna ekki,“ segir á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness þar sem fjallað er um nýjan kjarasamning sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Er þar vísað til framgöngu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna kjaradeilunnar.
Ráðherrann hafi lagt fram sáttatillögu á föstudagskvöldið skömmu áður en kjaradeilan leystist sem sjómenn hefðu haft til miðnættis til þess að ganga að. Þorgerður hafi sagt að lög á verkfall væru tilbúin í ráðuneyti hennar og ef sáttatillagan yrði ekki samþykkt þyrfti hún í kjölfarið að hafa samband við forseta Alþingis vegna málsins.
Forysta sjómanna hafi hins vegar ekki getað fallist á sáttatillögu ráðherrans þar sem í henni hafi verið kveðið skýrt á um að sjómenn nytu ekki skattahagræðis vegna fæðishlunninda nema þeir væri á sjó lengur en 48 klukkustundir. Það þýddi að 40% allra íslenskra sjómanna hefði ekki fengið neitt úr úr því fyrirkomulagi.
„Með þessu var verið að reka fleyg í raðir sjómanna, því það kom aldrei til greina hjá samninganefnd sjómanna að skilja 40% af félögunum eftir án þess að þeir fengju neitt. Á þessari forsendu hafnaði sjómannaforystan þessu svokallaða sáttatilboði, því þetta sáttatilboð setti samninganefndina í gríðarlega erfiða og ógeðfellda stöðu,“ segir á vefsíðunni.
Þannig hafi aðkoma stjórnvalda að kjaradeilunni ekki verið þeim til sóma. „Það er dapurlegt til þess að vita að forystumönnum sjómanna hafi verið stillt upp við vegg á ögurstundu vegna þeirrar sjálfsögðu kröfu að sjómenn yrðu meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að skattameðferð á dagpeningum vegna fæðiskostnaðar.“
Hins vegar væri ljóst að kjarasamningurinn sem samið var um án aðkomu stjórnvalda skilaði íslenskum sjómönnum umtalsverðum ávinningi. Mörg brýn réttindamál hafi náðst í gegn og samningarnir muni skila sjómönnum um eða yfir 2 milljörðum. „En það er alltaf þannig í allri kjarasamningsgerð að menn vilja gera betur. Menn vilja ná meiru og það er eðlilegt.“