„Ég held að þetta geti orðið erfitt í vissum tegundum, sérstaklega ferska fiskinum sem er háður stanslausu og stöðugu framboði. Norðmenn hafa verið að dæla þorski um alla Evrópu þannig að verkfallið kom ekki á besta tíma,“ segir Karl Hjálmarsson, markaðs- og samskiptastjóri hjá Iceland Seafood International.
Iceland Seafood International er sölu- og markaðsfyrirtæki í útflutningi á ferskum, frosnum og söltuðum sjávarafurðum. Félagið var stofnað árið 1932 og starfsemi þess nær til allra helstu sjávarútvegsmarkaða heims.
„Við þurfum að sjá hvað gerist með verð og framboð og reyna að vinna okkur til baka í þeim vöruflokkum þar sem við höfum lent í vandræðum. Við förum ekki auðveldlega inn og sérstaklega ekki ef menn ætla að fara að veiða af krafti, það getur haft áhrif á markaðsverð. Þá erum við að keyra niður verð sem við erum búin að byggja upp gegnum tíðina,“ segir Karl.
Hann segir að fyrirtækið hafi orðið vart við að viðskiptavinir hafi leitað annarra ráða þegar verkfallið tók að dragast á langinn.
„Ísland er þó nokkuð stórt í veitingageiranum og þar tekur langan tíma að koma vöru á matseðil. Þegar hún er komin þarf veitingahúsið að geta reitt sig á að fá þennan fisk. Við höfum misst nokkra yfir og þá er spurning hvort við náum þeim til baka,“ segir Karl.