Persónulegur aðstoðarmaður franska forsetaframbjóðandans Marine Le Pen hefur verið ákærður í hneykslismáli sem tengist „gervi-störfum“ á Evrópuþinginu.
Catherine Griset, skrifstofustjóri hjá Le Pen, var ákærð fyrir að brjóta trúnað vegna rannsóknar á ásökunum um að þjóðernisflokkur Le Pen, National Front, hafi svikið Evrópuþingið um í kringum 340 þúsund evrur.
Griset og lífvörður Le Pen, Thierry Legier, voru yfirheyrð í dag af deild innan lögreglunnar sem berst gegn spillingu en Legier var ekki ákærður.
Evrópuþingið hefur sakað Le Pen um að nota sjóði þingsins til að greiða starfsmönnunum tveimur á meðan þeir störfuðu fyrir National Front í Frakklandi en ekki í höfuðstöðvum þingsins.
Le Pen hefur neitað að endurgreiða peninginn og neitar öllum ásökunum. Hún segir rannsóknina vera herferð gegn sér.