Erfiðasti hnúturinn á lokaspretti sjómannadeilunnar var fæðiskostnaður sjómanna og skattgreiðslur af fæðispeningunum.
Hann losnaði ekki fyrr en samkomulag náðist milli viðsemjendanna í nýju sjómannasamningunum um að útgerðir skuli framvegis láta skipverjum fullt fæði í té endurgjaldslaust.
Fæðishlunnindi teljast þó eftir sem áður skattskyldar tekjur sjómanna líkt og fæðispeningarnir og ber sjómönnum að greiða tekjuskatt af þeim samkvæmt skattalögum. Spurður í Morgunblaðinu í dag hver ávinningurinn sé af samkomulaginu segir Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, að hann sé heilmikill. Fæðispeningarnir sem greiddur var skattur af dugðu ekki alltaf til að greiða fæðiskostnaðinn og sjómenn þurftu því að borga sjálfir til viðbótar fyrir fæðið.