Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í fitusog.
Sæl Þórdís,
ég er mikið að velta fitusogi fyrir mér. Verður maður að fara í svæfingu ef maður fer í fitusog á maga?
Kær kveðja,
ein sem vill losna við fituna
Sælar og takk fyrir spurninguna.
Til þess að árangurinn verði sem bestur, þá er best að gera fitusogið á maga í svæfingu. Það er einungis ef um lítið svæði er að ræða (t.d. undirhaka) að hægt er að framkvæma það í deyfingu. Ef reynt er að gera stærri svæði í deyfingu er hætta á að deyfingin virki ekki eins vel á allt svæðið og sjúklingurinn finni þá fyrir sársauka við aðgerðina. Aðgerðarlæknirinn getur þá ekki fjarlægt fituna eins vel og hann myndi vilja og árangurinn því ekki eins góður.
Eftir fitusogið er síðan mikilvægt að vera í þrýstings/teygjubuxum í 6-8 vikur á eftir. Þær þjóna þeim tilgangi að flýta fyrir því að bjúgur sem kemur á svæðið minnki hraðar og hverfi síðan. Til þess að flýta fyrir því ferli virkar oft vel að fara í svokallað LPG-nudd. Það er sogæðanudd sem meðal annars hjálpar undirhúðinni að losna við bjúg eftir fitusog.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.