Berlínarbúar syrgja Fritz

00:00
00:00

Marg­ir Berlín­ar­bú­ar voru hnuggn­ir í gær eft­ir að frétt­ist af því að ís­bjarn­ar­húnn­inn Fritz væri dauður. Bana­mein hans voru lifr­ar­bólg­ur en hann var aðeins fjög­urra mánaða gam­all. 

Fritz fædd­ist í Tierpark-dýrag­arðinum í Berlín 3. nóv­em­ber og er fyrsti ís­björn­inn sem þar fæðist í 32 ár. Tví­buri hans lést fljót­lega eft­ir fæðingu. 

Fritz.
Fritz. AFP

Fram­kvæmda­stjóri dýrag­arðsins, Andreas Knieriem, er einn þeirra sem er miður sín yfir dauða Fritz enda tókst hon­um að vinna hug og hjörtu starfs­fólks og gesta á skammri ævi. 

Starfs­fólk Tierpark fann Fritz liggj­andi við hlið móður sinn­ar, Tonju, á mánu­dags­morgn­in­um og var mjög af hon­um dregið. Hann fékk sýkla- og verkjalyf en allt kom fyr­ir ekki og drapst hann um kvöldið. 

Fjöl­marg­ir þýsk­ir fjöl­miðlar fylgd­ust grannt með líðan húns­ins og skrifaði meðal ann­ars ráðuneyt­is­stjóri Ang­elu Merkel færslu um Fritz þegar frétt­ist af dauða hans.

Marg­ir muna eft­ir ís­bjarn­ar­hún­in­um Knúti sem fædd­ist í dýrag­arði í Berlín í Þýskalandi árið 2006. Líf Knúts var ekki laust við drama­tík en móðir hans af­neitaði hon­um stuttu eft­ir fræðingu. Knút­ur drukknaði í laug sinni í dýrag­arðinum fyr­ir fram­an fjöl­marga gesti dýrag­arðsins árið 2011. Að sögn sér­fræðinga fékk Knút­ur flog sem varð til þess að hann drukknaði. Flogið varð vegna sjálfsof­næm­is­sjúk­dóms sem varð til þess að heili ís­bjarn­ar­húns­ins bólgnaði upp.

Knút­ur varð fljót­lega heims­fræg­ur og fjöl­marg­ir sóttu í garðinn til þess eins að sjá Knút. En líf hans var eng­inn dans á rós­um. Stuttu eft­ir fæðingu af­neitaði móðir Knúts hon­um, tví­buri hans drapst nokk­urra daga gam­all og dýrag­arðsstarfsmaður­inn sem ól hann upp lést árið 2008. Talið er að Knút­ur hafi verið lagður í einelti af öðrum ís­björn­um og að hann hafi þjáðst af at­ferl­istrufl­un sem varð til þess að hann sótti í at­hygli mann­fólks. Til eru dæmi um að Knút­ur hafi fengið bræðiköst ef hann fékk ekki at­hygli.  

En Knút­ur fékk vissu­lega sinn skerf að at­hygli og græddi dýrag­arður­inn millj­ón­ir evra á veru hans þar. Þar að auki birt­ist hann á forsíðu tíma­rits­ins Vanity Fair og á þýsk­um frí­merkj­um.

Knút­ur var aðeins fjög­urra ára gam­all þegar hann drapst og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fjöl­marg­ir komu að búri hans og skildu eft­ir blóm, kerti og kort. Þar að auki var stytta af birn­in­um, sem heit­ir „Dreym­andi Knút­ur“ reist til minn­ing­ar um hann.

Ísbjarnarhúnninn Fritz.
Ísbjarn­ar­húnn­inn Fritz. AFP
AFP
AFP
mbl.is