Margir Berlínarbúar voru hnuggnir í gær eftir að fréttist af því að ísbjarnarhúnninn Fritz væri dauður. Banamein hans voru lifrarbólgur en hann var aðeins fjögurra mánaða gamall.
Fritz fæddist í Tierpark-dýragarðinum í Berlín 3. nóvember og er fyrsti ísbjörninn sem þar fæðist í 32 ár. Tvíburi hans lést fljótlega eftir fæðingu.
Framkvæmdastjóri dýragarðsins, Andreas Knieriem, er einn þeirra sem er miður sín yfir dauða Fritz enda tókst honum að vinna hug og hjörtu starfsfólks og gesta á skammri ævi.
Starfsfólk Tierpark fann Fritz liggjandi við hlið móður sinnar, Tonju, á mánudagsmorgninum og var mjög af honum dregið. Hann fékk sýkla- og verkjalyf en allt kom fyrir ekki og drapst hann um kvöldið.
Fjölmargir þýskir fjölmiðlar fylgdust grannt með líðan húnsins og skrifaði meðal annars ráðuneytisstjóri Angelu Merkel færslu um Fritz þegar fréttist af dauða hans.
Margir muna eftir ísbjarnarhúninum Knúti sem fæddist í dýragarði í Berlín í Þýskalandi árið 2006. Líf Knúts var ekki laust við dramatík en móðir hans afneitaði honum stuttu eftir fræðingu. Knútur drukknaði í laug sinni í dýragarðinum fyrir framan fjölmarga gesti dýragarðsins árið 2011. Að sögn sérfræðinga fékk Knútur flog sem varð til þess að hann drukknaði. Flogið varð vegna sjálfsofnæmissjúkdóms sem varð til þess að heili ísbjarnarhúnsins bólgnaði upp.
Knútur varð fljótlega heimsfrægur og fjölmargir sóttu í garðinn til þess eins að sjá Knút. En líf hans var enginn dans á rósum. Stuttu eftir fæðingu afneitaði móðir Knúts honum, tvíburi hans drapst nokkurra daga gamall og dýragarðsstarfsmaðurinn sem ól hann upp lést árið 2008. Talið er að Knútur hafi verið lagður í einelti af öðrum ísbjörnum og að hann hafi þjáðst af atferlistruflun sem varð til þess að hann sótti í athygli mannfólks. Til eru dæmi um að Knútur hafi fengið bræðiköst ef hann fékk ekki athygli.
En Knútur fékk vissulega sinn skerf að athygli og græddi dýragarðurinn milljónir evra á veru hans þar. Þar að auki birtist hann á forsíðu tímaritsins Vanity Fair og á þýskum frímerkjum.
Knútur var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann drapst og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fjölmargir komu að búri hans og skildu eftir blóm, kerti og kort. Þar að auki var stytta af birninum, sem heitir „Dreymandi Knútur“ reist til minningar um hann.