Emmanuel Macron, frambjóðandi En marche, nýtur stuðnings 26% franskra kjósenda í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fer 23. apríl. Frambjóðandi Front National, Marine Le Pen, er með 25% en hún hefur undanfarið verið í fyrsta sæti í skoðanakönnunum.
Margir stuðningsmanna Macron koma úr hópi fólks sem hefur fengið nóg af hefðbundnu stjórnmálaflokkum Frakklands. Macron er 39 ára gamall og er fyrrverandi efnahagsmálaráðherra landsins í ríkisstjórn sósíalista.
Samkvæmt könnun Harris hefur fylgi Macron aukist um 6% á tveimur vikum. Talið er fullvíst að enginn forsetaframbjóðandi fái yfir 50% í fyrri umferðinni og því verið kosið á milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni. Seinni umferðin verður 7. maí.
Samkvæmt könnuninni myndi Macron fá 65% í seinni umferðinni en Le Pen 35%. Enn hefur engin könnun bent til þess að hún gæti haft betur í seinni umferðinni en Marine Le Pen er þrátt fyrir það vongóð og minnir á gott gengi Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum í fyrra.
Í gær lýsti fyrrverandi borgarstjóri Parísar, Bertrand Delanoe, sem er sósíalisti, yfir stuðningi við Macron og sagði hann umbótasinna, Evrópubúa og raunsæismann.
Í viðtali við France Inter útvarpsstöðina í gær sagði Delanoe að hann styddi framboð Macrons þar sem það væri grundvallaratriði að styðja þann frambjóðanda sem mögulega gæti haft betur gegn Marine Le Pen í fyrri umferðinni.
Delanoe er ekki sá eini sem hefur lýst yfir áhyggjum af mögulegum sigri Le Pen. Í grein sem birtist í Le Monde í gær skrifar Thierry Dana, sendiherra Frakka í Japan, að ef sá harmleikur gerist að Marine Le Pen verði kjörin þá muni hann segja sig frá öllum opinberum störfum.