Skjaldbakan Diego er engin venjuleg baka. Hann hefur fengið viðurnefnið Casanova þar sem hann er sagður upp á sitt einsdæmi hafa bjargað tegund sinni frá útrýmingu. Diego hefur eignast hvorki meira né minna en 800 afkvæmi.
Sagan af frjósemi Diegos hefur farið sem eldur í sinu um fjölmiðla heimsins en prófessor við háskóla í New York, sem rannsakað hefur skjaldbökurnar, segir að þó að hann sé afkastamikil þegar kemur að því fjölga sér er líklega önnur skjaldbaka enn duglegri. Sú hefur hins vegar ekki mjög eftirtektarvert nafn. Hún heitir einfaldlega E5. Samkvæmt rannsóknum hefur E5 eignast helmingi fleiri afkvæmi en Diego.
Skýringin á frægð Diegos er sú að hann hefur oft sést í mökum við kvenkyns skjaldbökur.
Fyrir um hálfri öld var Diego í hópi fimmtán skjaldbaka af sinni tegund í heiminum. Tegundin heitir chelonoidis hoodensis og taldi fyrir hálfri öld þrjú karldýr og tólf kvendýr. Diego kom í heiminn á eyjunni Espanola en far fluttur í dýragarð í Sand Diego þar sem hann var frá fjórða til sjöunda áratug síðustu aldar.
Þegar þjóðgarður var stofnaður á Galapagos var hann fluttur þangað. Tilgangurinn var að fjölga í stofni skjaldbaka af hans tegund.
Diego er nokkuð sérstakur í útliti. Skel hans er brotin enda er hann meira en 100 ára gamall. „Hann lítur út eins og reyndur stríðsmaður,“ segir prófessorinn James Gibbs. Hann segir Diego ekki stóran í samanburði við aðra skjaldbökukarla en hins vegar er hann hugaður.
Diego og félagi hans E5 eru mun frjósamari en Einfarinn George (e. lonesome George), ein þekktasta skjaldbaka allra tíma. Hann var sá síðasti af tegundinni chelonoidis abingdoni og drapst árið 2012. Einfarinn George hafði engan áhuga á kvendýrum sem leidd voru á hans fund.