Hundurinn baðaði vankaðan fuglinn

Fuglinn og hundurinn voru mestu mátar.
Fuglinn og hundurinn voru mestu mátar. Ljósmynd/Gunnar Kr. Sigurjónsson

„Ég sat við tölv­una og hafði opnað út á sval­ir þegar hund­ur­inn minn, hann Tíg­ull, kom væl­andi til mín og hætti ekki fyrr en ég elti hann þangað.“ Þannig hefst frá­sögn Gunn­ars Kr. Sig­ur­jóns­son­ar en Tíg­ull var að reyna að benda eig­anda sín­um á að á svöl­un­um væri lít­ill fugl.

Gunn­ar seg­ir að þar hafi auðnu­titt­ling­ur legið hreyf­ing­ar­laus á svalagólf­inu. Hann náði í bréfa­körfu með neti á hliðunum og setti var­lega yfir fugl­inn sem haggaðist ekki. „Ég hélt þá að hann væri dauður, en þá flögraði hann upp og sett­ist inn­an í net­körf­una. Ég tók hann inn og gaf hon­um smá korn og vatn og inn­an skamms var hann far­inn að tísta aðeins, svo ég sleppti hon­um laus­um.“

Gunn­ar setti fugl­inn síðan í lóf­ann og tók nokkr­ar mynd­ir þar sem hund­ur­inn þefaði af hon­um. „Fugl­inn flaug síðan stór­an hring í stof­unni og sest beint á haus­inn á hund­in­um. Síðan fór­um við með hann út á sval­ir, en ekki fyrr en Tíg­ull hafði baðað hann aðeins,“ seg­ir Gunn­ar.

Gunn­ar setti fugl­inn á svala­hand­riðið og fór inn. Hann leit á fugl­inn um klukku­tíma síðar, sem var þá á ná­kvæm­lega sama stað en hafði flogið heil­an hring í stof­unni áður þannig að Gunn­ar var viss um að hann gæti flogið.

Hundurinn var mjög forvitinn.
Hund­ur­inn var mjög for­vit­inn. Ljós­mynd/​Gunn­ar Kr. Sig­ur­jóns­son

Þarna var orðið ansi kalt og ég tók hann inn aft­ur og hann var í körf­unni í nótt. Ég þurfti að fara á fund í morg­un og þegar ég kom aft­ur í há­deg­inu sá ég að þetta var allt ann­ar fugl en ég var með í hönd­un­um í gær. Hann var var um sig og þegar ég lyfti körf­unni af hon­um þá flaug hann um leið,“ seg­ir Gunn­ar sem tel­ur lík­legt að fugl­inn hafi verið vankaður í gær­kvöldi.

Ég sleppti hon­um laus­um í há­deg­inu og var ánægður að hann hafi fengið nótt­ina til að jafna sig.“

mbl.is