Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að maður, sem grunaður er um að hafa nauðgað tveimur konum á hóteli á Selfossi, skuli sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 12. apríl.
Maðurinn, sem er spænskur, var hnepptur í varðhald í kjölfar handtöku sinnar á vettvangi mánudaginn 13. febrúar. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi allar götur síðan.
Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, kemur fram að fallist sé á það með lögreglustjóra að maðurinn sé undir sterkum, rökstuddum grun um að hafa brotið gegn tveimur konum með stuttu millibili undir morgun þann 13. febrúar. Að mati dómsins má ætla að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Konurnar sem hann er grunaður um að hafa nauðgað voru sofandi er hann er sagður hafa brotið gegn þeim. Þær voru í miklu uppnámi þegar þær tilkynntu um brotin. Sjúkraliði þurfti að sprauta aðra þeirra niður.
Fyrri fréttir mbl.is: