Francois Fillon, forsetaframbjóðandi franska Repúblikanaflokksins, sakaði í gærkvöldi nafna sinn og núverandi forseta, Francois Hollande, um að standa að baki fjölmiðlaleka til að skaða ímynd sína. Sagði hann Hollande fara fyrir leynilegri sellu sem bæri ábyrgð á lekanum og að þetta væri „hneykslismál sem ríkisvaldið væri flækt í“.
„Í tvo mánuði er pressan búin að ata mig auri,“ sagði Fillon í viðtali á sjónvarpsstöðinni France 2. Bætti hann við að samkvæmt bók sem standi til að gefa út á næstunni eftir „blaðamenn sem eru langt frá því að vera vinir mínir,“ hefði Hollande komist yfir upptökur tengdar rannsókninni. „Sem er fullkomlega ólöglegt,“ sagði Fillion.
Einn höfunda bókarinnar sem hann vísar til, Didier Hassoux, hafnar hins vegar fullyrðingum Fillons og sagði hann örvæntingarfullan frambjóðanda sem sé að koma með óverjandi fullyrðingar. „Eini maðurinn sem trúir því að það sé leynisella í forsetahöllinni er Francoios Fillon,“ sagði Hassoux, og bætti við að leynisellan væri ekki til.
Hollande fordæmdi strax ásakanir Fillons, sem hann sagði ósannar með öllu. „Framkvæmdavaldið hefur aldrei skipt sér af dómskerfinu,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetaembættinu vegna málsins.
Fillon þótti líklegur til að komast í aðra umferð forsetakosninganna er hann var fyrst útnefndur frambjóðandi repúblikana. Um mánuður er nú þar til fyrsta umferð frönsku forsetakosninganna fer fram, en Fillon sætir rannsókn vegna fjármála sinna, m.a. vegna launagreiðslna til eiginkonu sinnar og barna fyrir störf sem talið er að þau hafi ekki unnið.
Hann hefur nú fallið niður í þriðja sæti í skoðanakönnunum og mun ef svo fer sem horfir ekki komast áfram. Þykja nú þau Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, og óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron líklegust til að bítast um hnossið.