Útlit er fyrir að þriðjungur starfa í samsteypu HB Granda á Akranesi verði lagður niður, en áform eru um að sameina botnfiskvinnsluna í bænum þeirri sem er í Reykjavík. Um er að ræða 93 störf og er samráðsferli við stéttarfélög og trúnaðarmenn hafið. Að sögn trúnaðarmanns er starfsfólkið slegið.
„Við gætum verið að reka okkar botnfiskvinnslu í Reykjavík í dag og vinna þar 24 þúsund tonn eða svo. Við höfum ekki aðstöðu til þess hér,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Bæjaryfirvöld á Akranesi munu á næstu dögum funda með forsvarsmönnum HB Granda um úrbætur á Akranesshöfn. Lengi hefur verið rætt um að laga höfnina betur að starfsemi fyrirtækisins, en Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að bæjaryfirvöld muni gera allt sem þau geti til að koma til móts við fyrirtækið. Hann segir að vinnslunni sé betur borgið á Akranesi en á núverandi stað, í Reykjavík.