Gátu ekki varist blekkingunum

Geir H. Haarde var fjármálaráðherra árið 2003 þegar S-hópurinn festi …
Geir H. Haarde var fjármálaráðherra árið 2003 þegar S-hópurinn festi kaup á 45,8 prósenta hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, sem var fjármálaráðherra þegar 45,8 prósenta hlutur íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum var seldur S-hópnum svonefnda í janúar 2003, segir það dapurlegra en orð fá lýst að nú, 14 árum eftir að hluturinn var seldur, komi í ljós að stjórnvöld sem seldu þessa eign almennings í góðri trú og í samræmi við lagaheimildir hafi verið blekkt varðandi þátt hins þýska banka í kaupunum.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Geirs við fyrirspurn mbl.is en ítar­leg skrif­leg gögn sýna með óyggj­andi hætti að þýski bank­inn Hauck & Auf­häuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupt­hing Bank Lux­em­bourg og hóp­ur manna sem vann fyr­ir og í þágu Ólafs Ólafs­son­ar fjár­fest­is notuðu leyni­lega samn­inga til að fela raun­veru­legt eign­ar­hald þess hlut­ar sem Hauck & Auf­häuser átti í orði kveðnu.

„Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er skýr um að stjórnvöld hafi verið beitt skipulegum blekkingum í tengslum við sölu Búnaðarbankans árið 2003 varðandi þátt hins þýska banka í kaupunum. Þessum vel undirbúnu blekkingum gátu stjórnvöld ekki varist enda höfðu þau ekki ástæðu til að gruna kaupendur um þess háttar athæfi,“ segir Geir.

mbl.is

Bloggað um fréttina