Hótanir sem lýsi miklum hroka

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Hótanir forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi lýsa miklum hroka og skorti á samfélagslegri ábyrgð. Þetta segir í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, um mögulegar uppsagnir í botnfiskvinnslu hér á landi.

Lýsir miðstjórnin þungum áhyggjum af fyrirhugaðri fækkun á störfum í fiskvinnslu víða um land.

„Slíkar hótanir kalla á endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar þar sem tekið yrði sérstaklega á þessum vanda til að tryggja betur atvinnuöryggi í landvinnslunni,“ segir í ályktuninni sem heldur svo áfram:

„ Þeim fyrirtækjum sem fara með afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar ber skylda til að tryggja að arðurinn af henni renni til samfélagsins en ekki eingöngu til eigenda sjávarútvegs fyrirtækjanna.

Launafólk í heilu byggðarlögunum á stöðugt á hættu að missa lífsviðurværi sitt vegna tilfærslu aflaheimilda og hagræðingaraðgerða í sjávarútvegi sem hafa það eina markmið að hámarka gróða eigendanna.

Mikið hefur skort á réttláta skiptingu arðs af fiskveiðiheimildum og löngu tímabært að sjávarútvegurinn greiði sanngjarnt afgjald fyrir afnotaréttinn sem m.a. nýtist til uppbyggingar í þeim byggðarlögum sem verða fyrir barðinu á breytingum í greininni.“

mbl.is