Aflaverðmæti dróst saman um 12,1%

Verðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára.
Verðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára. mbl.is/Golli

Samkvæmt bráðabirgðatölum nam aflaverðmæti íslenskra skipa 133 milljörðum króna á síðasta ári, saman borið við ríflega 151 milljarð árið 2015. Aflaverðmæti úr sjó hefur því minnkað um rúma 18 milljarða eða sem nemur 12,1% samdrætti á milli ára.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Segir þar að aflaverðmæti í desember hafi numið rúmum 6,5 milljörðum króna, saman borið við 8,5 milljarða í desember 2015.

Aflaverðmæti botnfisks nam 92,7 milljörðum á árinu, en það er samdráttur um 9,9% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur, með aflaverðmæti upp á 58 milljarða króna sem er 4,8% minna en árið 2015.

Verðmæti flatfiskafla var 9 milljarðar á síðasta ári sem er 7,9% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla nam 27,8 milljörðum sem er 19,6% minna en árið 2015.

Verulegur samdráttur í verðmæti loðnu

Aflaverðmæti síldar jókst um 11% en verðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára, eða um 60,9%. Verðmæti skel- og krabbadýra var tæpir 3,5 milljarðar á síðasta ári sem er 12,9% samdráttur frá árinu 2015.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 70,2 milljörðum króna árið 2016 sem er samdráttur um 13,9% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 19,5 milljörðum og dróst saman um 4,1%.

Aflaverðmæti sjófrystingar dróst einnig saman á milli ára, nam rúmum 37 milljörðum samanborið við tæpa 44 milljarða árið 2015.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.

mbl.is