Skattrannsóknarstjóri ætlar að fara yfir það sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna sölu á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum árið 2003.
„Það verður farið yfir efnisatriði hennar af hálfu embættisins. Ef það telur ástæðu til þess að taka eitthvað til rannsóknar af sjálfsdáðum þá er ekkert sem stendur í vegi fyrir því,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Hún tekur fram að verði eitthvað tekið til rannsóknar þá sé embættið samt sem áður ekki að taka neina afstöðu með því eða gefa undir fótinn.
„Það er eðlilegt að það sé farið yfir hana [skýrsluna] og þetta metið út frá því.“
Aðspurð segir Bryndís að embættið hafi ekki veitt rannsóknarnefnd Alþingis aðstoð við gerð skýrslunnar.
Hún segir að ekkert hafi komið sér á óvart í niðurstöðum hennar. „Það er ekkert sjálfu sér sem kemur á óvart lengur. Það að félög á aflandssvæðum séu notuð í hinum ýmsa tilgangi er eitthvað sem öllum er orðið kunnugt um.“