58 fleiri nauðgunarmál komu inn á borð til Stígamóta á árinu 2016 en 2015. Mikil aukning er á tilkynntum hópnauðgunum og lyfjanauðgunum. „Það er nærtækt að álykta að nauðgunarfaraldur hafi átt sér stað,“ segir Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta. Þá hafi átak samtakanna gert fólki auðveldara að stíga fram.
Grófari brot
Á árinu 2015 var tilkynnt um 13 lyfjanauðganir en í fyrra voru þær 27, tilkynntar hópnauðganir fóru á sama tíma úr 11 í 29. Guðrún segir að sögur af grófara ofbeldi hafi verið áberandi í viðtölum Stígamóta og fjöldi gerenda gagnvart hverjum brotaþola voru allt upp í 7 einstaka brotamenn. Rétt er að halda því til haga að þó tilkynningarnar hafi borist inn á síðasta ári getur verið að lengra sé síðan brotið átti sér stað.
Umræðan skiptir máli
Seint á síðasta ári fór herferðin Styttum svartnættið af stað þar sem fórnarlömb kynferðisofbeldis stigu fram og sögðu frá reynslu sinni. Þetta segir Guðrún að hafi greinilega haft áhrif því að fjöldi viðtala þar sem tilkynnt var um kynferðisbrot fór úr 22-23 viðtölum í september og október í 51 og 52 í nóvember og desember. „Það virðist hafa verið hvatning fyrir fólk að leita sér hjálpar og segja frá þessu grófa ofbeldi.“
Aukningin í tilkynntum kynferðisofbeldismálum hefur verið stöðug frá stofnun samtakanna og Guðrún segir það ekki síst til marks um það að fólk sætti sig síður við að verða fyrir kynferðisofbeldi nú en áður.
Tölur úr skýrslunni
Hér má sjá viðtöl úr herferðinni Styttum svartnættið.