Ríkisendurskoðun hefur ekki sjálfstæðar rannsóknarheimildir, heldur getur stofnunin einungis óskað eftir gögnum og upplýsingum.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, hefur undanfarna daga gagnrýnt sinnuleysi Ríkisendurskoðunar hvað varðaði ábendingar hans í sambandi við þýska bankann Hauck & Aufhäuser, og efasemdir hans um að bankinn væri að taka þátt í að kaupa hlut af ríkinu í Búnaðarbankanum árið 2003.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, að hann teldi ekki að Ríkisendurskoðun þyrfti að breyta starfsháttum sínum og verklagi að neinu marki. „Við höfum ekki rannsóknarheimildir, heldur þurfum við bara að trúa því sem að okkur er rétt og við höfum beðið um. Ef við teljum að við höfum ekki fengið réttar upplýsingar og við höfum sterka vísbendingu um að lög hafi verið brotin, þá höfum við alltaf þann möguleika að vísa málinu til lögreglu til frekari rannsóknar,“ sagði Sveinn.