Útgerðarfyrirtæki verða að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar sinnar þegar kemur að byggðarlögum sem byggja allt sitt upp á sjávarauðlindinni.
Svo hljómar bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sem haldinn var í gær.
Var þar meðal annars rædd sú staða sem upp er komin á Akranesi vegna fyrirhugaðra uppsagna HB Granda.
„Í ljósi umræðu seinustu daga vill stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsa yfir ánægju sinni með þá ákvörðun HB Granda um að fresta því að loka botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi og ganga til viðræðna við bæjarstjórn Akranesbæjar,“ segir í bókuninni.
Stjórnin leggur þá áherslu á að „jafn stórar ákvarðanir sem þessar séu ekki teknar án þess að búið sé að ræða við fulltrúa þess sveitarfélags sem um ræðir. Það að tæplega 100 starfsmenn fyrirtækisins og nærsamfélagsins þurfi að búa við þessa óvissu er óviðunandi ástand og verða útgerðarfyrirtæki að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar sinnar þegar kemur að byggðarlögum sem byggja allt sitt upp á sjávarauðlindinni.“
Segir þá að að gefnu tilefni vilji stjórnin einnig ítreka kröfu sína, um að sjávarútvegssveitarfélög fái hluta af veiðigjöldum til sín svo þau geti betur tekist á við það ef slík áföll verða að veruleika.