Hart var sótt að leiðtoga Front National, Marine Le Pen, í sjónvarpskappræðum 11 forsetaframbjóðenda í Frakklandi í gærkvöldi. Hennar helsti keppinautur, miðjumaðurinn Emmanuel Macron, sagði að hugmyndir Le Pen í efnahagsmálum jöfnuðust á við stríðsátök.
Meðal annars var tekist á um veru Frakka í ESB og töldu einhverjir þeirra sem lengst eru til hægri að hún stæði ekki nægjanlega fast á stöðu Frakka innan bandalagsins á meðan Francois Fillon, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, sagði að Frakkar þyrftu á Evrópu að halda til þess að standa uppi í hárinu á Bandaríkjunum og Kína.
Le Pen hét því að endurvekja landamæraeftirlit Frakklands og losa þjóðina við evruna. Eins að standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi veru Frakklands í ESB.
Um var að ræða aðrar af þremur sjónvarpskappræðum forsetaframbjóðendanna en fyrri umferð kosninganna fer fram síðar í mánuðinum.