Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn 4. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Verkefnisstjórnin er ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir rammaáætlun.
Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er verkefnisstjórnin skipuð til fjögurra ára í senn og hefur verkefnisstjórn 3. áfanga lokið störfum, að því er kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Verkefnisstjórn er ætlað að skila tillögum sínum til ráðherra innan fjögurra ára. Hún er skipuð sex fulltrúum og jafn mörgum til vara.
Skipuð án tilnefningar:
Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða, formaður.
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, varamaður formanns.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, aðalfulltrúi.
Jórunn Harðardóttir, framkvæmdastjóri úrvinnslu- og rannsóknasviðs Veðurstofu Íslands, til vara.
Tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:
Guðrún A. Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar HR, aðalfulltrúi.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, til vara.
Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður, tilnefndur af atvinnu- og nýsköpunarráðherra, aðalfulltrúi.
Laufey Jóhannsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit, til vara.
Tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti:
Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri hjá Akureyrarstofu, aðalfulltrúi.
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, til vara.
Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Elín R. Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra, aðalfulltrúi,
Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, til vara.
Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Verkefnisstjórn skal að fengnum niðurstöðum faghópa, samráði við haghafa og umsögnum almennings vinna drög að rökstuddum tillögum til ráðherra um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun verndar- og virkjunarsvæða.
Lögunum er ætlað að tryggja að nýting landsvæða þar sem möguleikar eru á orkuvinnslu byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Umhverfis- og atvinnuvegaáðuneytið leggur áherslu á að í byrjun starfsins taki verkefnisstjórn saman og kynni þá aðferðafræði sem hún hyggist beita í 4. áfanga. Þar verði sérstaklega höfð til hliðsjónar reynsla af fyrri áföngum í vinnu verkefnisstjórnar.
Lögð er sérstök áhersla á að verkefnisstjórnin starfi með þeim hætti að tryggt sé að almenningur hafi virka aðkomu og félagasamtök taki þátt í öllu starfi í tengslum við rammaáætlun, að því er kemur fram í tilkynningunni.