„Humarvertíðin hjá okkur er lungann úr árinu, fyrsti humaraflinn kom núna um borð um miðjan mars og vertíðin stendur alveg fram í nóvember alla jafna,“ segir Jón Páll Kristófersson, rekstrarstjóri Ramma í Þorlákshöfn.
Reiknað er með að í ár fari um 400 tonn af heilum humri í gegnum vinnsluhús Rammans í Þorlákshöfn, en fyrirtækið er eitt af þeim umsvifamestu í vinnslu á þessu eftirsótta krabbadýri.
Humarveiðin núna í upphafi vertíðar hefur gengið ágætlega miðað við tíðarfar, en helst er sótt í Breiðamerkur- og Hornafjarðadýpi núna. Bátar Rammans, Jón á Hofi og Fróði II, eru þar á veiðum og koma svo inn til löndunar á Höfn í Hornafirði. Afla bátanna tveggja er svo ekið að austan í Þorlákshöfn, þar sem um 40 manns starfa við vinnsluna.
„Það kemur mun betur út að aka aflanum að austan en að bátarnir sigli hingað, en úr djúpinu úti af Hornafirði er minnst tuttugu klukkustunda sigling til Þorlákshafnar, sem er dýrmætur tími þegar vel veiðist,“ segir Jón Páll.
Spánn er helsti markaðurinn fyrir íslenskan humar. Rík hefð er fyrir þessu sjávarfangi þar og matreiðsluhefðin gerir ráð fyrir því að humarinn sé eldaður og borinn heill á borð. Mest fyrir afurðina fæst því ef humarinn fer í öskjur með bæði haus og klóm, enda er lagt kapp á að svo sé.
Markaður fyrir humarhala hér innanlands er þó sífellt að stækka, og ræður þar meðal annars fjölgun ferðamanna og veitingahúsa.
„Krónan hefur verið að styrkjast undanfarið ár og skilaverðið í krónum hefur því farið lækkandi. Afurðaverð erlendis hefur þó hækkað á sama tíma, sem hefur vegið aðeins á móti, og eftirspurnin verið góð á okkar helstu mörkuðum,“ segir Jón Páll, sem hefur starfað hjá Ramma í Þorlákshöfn í mörg ár.
Þar er alhliða vinnsla sjávarafurða, það er á humri, þorski, karfa og flatfiski. Það er hins vegar í Fjallabyggð – það er Siglufirði og Ólafsfirði – sem Rammi hf. er með höfuðstöðvar sínar, svo sem rækjuvinnslu og togaraútgerð.