Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í hyaluronic-sýru í munnvikum.
Hæ Þórdís,
Ég er mikið að velta fyrir mér hyaluronic-sýru í munnvik. Hvernig virkar það og hvað kostar svoleiðis? Kær kveðja,
Gunna
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þegar við eldumst þá fáum við þennan „ómöguleika-svip“, þegar munnvikin togast niður á við. Ef við erum ósátt við þessi niðurdregnu munnvik og þessi svipur er á byrjunarstigi, þá er hægt að sprauta fylliefnum (hyaluronic-sýru) innan við fellinguna og leiðrétta hann að hluta. Hyaluronic-sýra er fjölsykrungur sem smám saman eyðist upp, yfirleitt á 12-14 mánuðum.
Algengt er að deyfa svæðið sem sprautað er í, oft með deyfikremi sem þú ert með í u.þ.b. 20 mín. Til þess að minnka líkur á marblettum mæli ég með því að sleppa lýsi, omega 3 og hörfræjaolíu eða öllu sem getur þynnt blóðið í 10 daga. Sumir eru á nauðsynlegri blóðþynningu og þá er hægt að minnka mar með kælingu á svæðið eftir sprautu.
Yfirleitt eru um 1 ml í hverri sprautu og verðið er á bilinu u.þ.b. 70 þúsund fyrir hverja meðferð. Verðið fer m.a. eftir tegund hyaluronic-sýrunnar sem er misdýr í innkaupum.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.