Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi og leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, neitaði því í dag að franska ríkið bæri ábyrgð á samansöfnun gyðinga í París í seinni heimsstyrjöldinni og flutningi þeirra í útrýmingarbúðir nasista.
Jacques Chirac, fyrrverandi forseti, og Francois Holland, núverandi forseti, hafa báðir beðist afsökunar á aðkomu franskra lögregluyfirvalda í samansöfnun 13.000 gyðinga við Vel d'Hiv-hjólreiðabrautina sem var fyrirskipuð af nasistum árið 1942.
Le Pen sagði hins vegar í samtali við sjónvarpsstöðina LCI í dag að hún teldi Frakkland ekki bera ábyrgð á viðburðinum, sem hefur verið kenndur við hjólreiðabrautina.
„Ég held að almennt séð, ef einhver er ábyrgur, þá eru það þeir sem voru við völd á þessum tíma. Ekki Frakkland,“ sagði hún.
Le Pen sagði að frönskum börnum hefði verið sagt að þau hefðu fulla ástæðu til að gagnrýna landið sitt og einblína á myrkustu tímabil sögu þess.
„Ég vil að þau fyllist aftur stolti af Frakklandi,“ sagði hún.
Keppinautur Le Pen í forsetakapphlaupinu, Emmanuel Macron, sagði ummæli hennar „alvarleg mistök“.
„Sumir hafa gleymt að Marine Le Pen er dóttir Jean-Marie Le Pen,“ sagði hann í samtali við BFMTV en Le Pen eldri, stofnandi Þjóðfylkingarinnar, hefur ítrekað verið sakfelldur fyrir ummæli sín um gyðinga og helförina, sem hann sagði eitt sinn „smáatriði í sögunni“.