Franska ákæruvaldið hefur farið þess á leit við Evrópuþingið að það aflétti friðhelgi Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda og leiðtoga Þjóðfylkingarinnar. Le Pen hefur verið sökuð um fjársvik, fyrir að hafa varið fjármunum frá Evrópuþinginu til að greiða starfsmönnum Þjóðfylkingarinnar.
Frakkar ganga að kjörborðinu eftir níu daga og tvísýnt er um úrslitin.
Beiðnin var lögð fram í lok síðasta mánaðar eftir að Le Pen, sem situr á Evrópuþinginu, vísaði til friðhelginnar þegar hún neitaði að gefa vitnisburð í fyrrnefndu máli. Önnur samhljóðandi beiðni var lögð inn varðandi samflokkskonu Le Pen, Marie-Christine Boutonnet, sem einnig neitaði að gefa vitnisburð.
Le Pen gefur lítið fyrir ósk ákæruvaldsins og segir hana ekki koma sér á óvart.
Rannsókn hófst eftir að Evrópuþingið kvartaði yfir því að 340.000 evra fjárveiting til flokksins, sem átti að mæta kostnaði við þingstörfin, hefði verið notuð til að greiða starfsmönnum Þjóðfylkingarinnar fyrir störf á vegum flokksins í Frakklandi.
Þingið hótaði því í febrúar sl. að draga af launum Le Pen ef peningarnir skiluðu sér ekki.
Ásakanirnar virðast ekki hafa haft teljandi áhrif á forsetaframboð Le Pen, sem er rétt á eftir miðjumanninum Emmanuel Macron í skoðanakönnunum fyrir fyrri umferð kosninganna.