Rúm vika er þar til Frakkar kjósa sér forseta og bendir allttil þess að enginn frambjóðandi fái meirihluta atkvæða þannig að kjósa þarf á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði. Einhverjir þeirra sem eru í framboði virðast ekki hafa nokkurn áhuga á að verða forseti.
Trotskíistinn, Nathalie Arthaud, segist ekki hafa nokkurn áhuga á að verða næsti forseti Frakklands en hún er sátt við þá athygli sem hún fær með framboðinu og nýtir hvert tækifæri til þess að ráðast gegn valdi fjármagnsins. Hún bauð sig einnig fram fyrir flokk sinn, Lutte Ouvrière, árið 2012 og þá hlaut hún 0,56% atkvæða. Hún heitir því að verði hún kjörin forseti þá muni hún hækka laun og gefa verkamönnum yfirráðaréttinn yfir fyrirtækjum.
Sálufélagi hennar, Philippe Poutou, hefur fengið sig fullsaddan af kapítalistum sem stjórni öllu í samfélaginu og segir frjálshyggjuna vera ganga að öllu dauðu. Poutou og Arthaud eru einu forsetaframbjóðendurnir sem eru í „venjulegri“ vinnu, hún kennari og hann vélvirki hjá Ford-bílaverksmiðjunum.
Hann hefur harðlega gagnrýnt François Fillon frambjóðanda repúblikana og Marine le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingunarinnar, vegna friðhelgi sem þau njóta í hneykslismálum. Friðhelgi sé eitthvað sem almenningur hafi ekki kost á þegar þeir bjóta af sér ólíkt atvinnustjórnmálamönnum sem taka þátt í fjársvikum.
Þriðji forsetaframbjóðandinn sem einnig tekur þátt í baráttunni gegn pólísku elítunni og heimsvaldi fjármagnsins er Jacques Cheminade, 75 ára aðgerðarsinni, þrátt fyrir að hann hafi sjálfur gengið í elítuskólann École nationale d'administration að loknu laganámi.
Þetta er í þriðja skiptið sem Cheminade bíður sig fram til forseta en árið 2012 fékk hann 0,25% atkvæða. Eitt af kosningaloforðum hans er að banna Pókemon Go sem hann segir lýsandi dæmi um vitmunaskort þjóðfélagsþegna enda sé leikurinn bæði heimskulegur og ógeðfelldur. Fyrir fimm árum beindust sjónir hans aftur á móti að landtöku á plánetunni Mars.
En ólíkt flestum keppinautum sínum er Jean Lassalle algjörlega sannfærður um að verða næsti forseti Frakklands þrátt fyrir að fylgi hans mælist aðeins 1,5% í skoðanakönnunum. Hann segir að enginn frambjóðandi standi honum fremur þegar kemur að þekkingu á Frakklandi en hann lagði að baki fimm þúsund kílómetra göngu um landið árið 2013.
Lassalle, sem situr á franska þinginu utan flokka, fór meðal annars í 39 daga hungurverkfall árið 2006 í mótmælaskyni við fækkun starfa í dalnum sem hann er frá í Pýrenea-fjöllunum.
Ef horft er til hægri er óhætt að segja að François Asselineau og Nicolas Dupont-Aignan hafi reynt að halda sig fjarri vinsælustu hægri frambjóðendunum, Le Pen og Fillon.
Asselineau, sem er 59 ára og starfaði áður við skattrannsókn, segist sjálfur vera lýðræðislegur þjóðernissinni. Hann heitir því að komist hann til valda þá muni Frakkland yfirgefa Evrópusambandið, evrusvæðið og NATO. Strax að loknum kosningum muni hann draga Frakkland úr ESB, ólíkt Le Pen sem leggur til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir að Frakkland séu orðið fylgihnöttur Bandaríkjanna sem muni draga landið í nútímanýlendustríð í Miðausturlöndum.
Dupont-Aignan, stýrir stjórnmálaflokknum Debout la France er einnig sammála því að yfirgefa evrusvæðið en ólíkt Le Pen vill hann breyta reglunum án þess að riðla öllu. Dupont-Aignan, sem mælist með 3,5% atkvæða, hvetur fólk til þess að kjósa með hjartanu og gegn harðstjórninni sem fylgir núgildandi kerfi.
Atvinnumálin eru helsta kosningamál allra frambjóðenda. Atvinnuleysi mælist rúm 10% og lækkaði aðeins um 0,2% í fyrra, mest vegna tilbúinna starfa sem ríkissjóður greiddi með því að bjóða fyrirtækjum borgun fyrir ráðningar. Láta mun nærri að fjórði hver Frakki undir 25 ára aldri sé atvinnulaus.
Öryggis- og innflytjendamál eru einnig ofarlega á baugi. Enn eru neyðarlög í gildi í framhaldi af hryðjuverkum sem kostað hafa 320 manns lífið í Frakklandi frá í janúar 2015. Hundruð ungra franskra múslima hafa gengið til liðs við sveitir Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi. Talið er að þar séu allt að 700 slíkir undir vopnum. Óttast er að þeir snúi aftur heim og fremji þar hroðaverk.