Utanríkisráðherra Þýskalands hefur varað Tyrki við því að fjarlægja sig frekar frá Evrópu með því að taka upp dauðarefsingar að nýju. Þá hefur hann hvatt stjórnvöld í Tyrklandi til þess að sækjast eftir „samtali“ til þess að „lækna klofið samfélag“ en forseti Tyrkja lýsti því yfir að hann ætlaði að láta þjóðina kjósa um endurvakningu dauðarefsinga í landinu.
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands sagði í dag að ef stjórnvöld í Tyrklandi myndu taka upp dauðarefsingu að nýju myndi það þýða „endalok evrópska draumsins“ fyrir Tyrki, þ.e. endalok viðræðna síðustu áratuga milli Tyrkja og Evrópusambandsins um inngöngu þjóðarinnar inn í sambandið.
Hann sagði það ekki þjóna hagsmunum Tyrklands að fjarlægja sig frekar frá Evrópu en Gabriel ræddi um nýafstaðna þjóðaratkvæðagreiðslu í Tyrklandi í gær í viðtali við blaðið Bild.
Sagði hann jafnframt mikilvægt að Tyrkir myndu taka ákvörðun um í hvaða átt þeir ætluðu að fara sem fyrst.
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, lýsti yfir sigri í atkvæðagreiðslunni sem fram fór í gær um breytingar á stjórnarskrá landsins. Andstæðingar Erdogan hafa sagst óttast það að með breytingunum muni Tyrkland færast nær einræði en áður.
Eftir að úrslit kosninganna urðu ljós sagði Erdogan að nú þyrfti að kjósa um hvort að það ætti að endurvekja dauðarefsingar.Tyrkir aflögðu þær þegar þeir reyndu að ganga í Evrópusambandið árið 2004. „Ef að frumvarp kemur á borðið mitt myndi ég samþykkja það. En ef það er ekki stuðningur frá stjórnarandstöðunni myndum við hafa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Erdogan í gær.
Þá hafa Sádi-Arabar fagnað úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Tyrklandi. Ríkisstjórn Sádi-Arabíu sendi Erdogan hamingjuóskir í dag samkvæmt Sádi-Arabískum miðlum.
Ríkisstjórnin sagðist vona að úrslitin myndu hafa jákvæð áhrif á þróun og velgengni Tyrklands.
Samband Sádi-Araba og Tyrkja hefur styrkst undanfarið ár, sérstaklega vegna stuðnings þeirra við uppreisnarmenn í Sýrlandi.