Munurinn er orðinn harla lítill á fylgi þeirra fjögurra forsetaframbjóðenda í Frakklandi sem mestur stuðningur mælist við ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrir franska dagblaðið Les Echos. Fyrri umferð kosninganna fer fram næsta sunnudag. Nái enginn meirihluta atkvæða verður kosið aftur á milli þeirra tveggja sem fá mest fylgi 7. maí.
Miðjumaðurinn Emmanuel Macron og Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, mælast enn með mest fylgi en samkvæmt könnuninni eru þau nú jöfn með 22%. Frambjóðandi hægrimanna, François Fillon, fylgir hins vegar fast á eftir með 21%. Þá mælist frambjóðandi róttækra vinstrimanna, Jean-Luc Mélenchon, með 18% fylgi.
Fillon hefur átt á brattann að sækja undanfarna mánuði vegna hneykslismála en upplýst var að eiginkona hans hefði þegið laun sem aðstoðarmaður hans án þess að sýnt hafi verið fram á að hún hafi innt nokkra vinnu af hendi. Þá var einnig upplýst að Fillon hefði þegið dýrar gjafir frá auðugum vinum sínum á meðan hann gegndi opinberu embætti.
Margir höfðu afskrifað Fillon og var hann hvattur til að draga framboð sitt til baka sem hann þvertók fyrir. Miðað við könnunina fyrir Les Echos virðist hann hins vegar eiga möguleika á að komast í síðari umferð kosninganna fari hún fram sem allar líkur eru taldar á.
Möguleikar Fillons á að ná kjöri verða meiri að mati stjórnmálaskýrenda ef valið stendur á milli hans og Le Pen í annarri umferðinni þar sem líklegt þykir að andstæðingar hennar fylki sér þá um hann til þess að koma í veg fyrir að hún verði næsti forseti franska lýðveldisins.