„Það er alltaf gott þegar menn tala saman,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, eftir fund með forsvarsmönnum HB Granda í dag. Á fundinum sem stóð yfir í rúmlega tvær klukkustundir var meðal annars rætt um uppbyggingu við höfnina á Akranesi. Félagið hefur í hyggju að loka botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi og er ástæðan meðal ekki nógu góð hafnaraðstaða.
Á fundinum sátu, auk Sævars, Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri útgerðarinnar og Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs á Akranesi.
Næsti fundur verður í næstu viku. Sævar vildi ekki gefa neitt upp um efni fundarins annað en að viðræður stæðu yfir.
Ef samkomulag næst ekki milli sveitarfélagsins og HB Granda mun fyrirtækið að óbreyttu loka 1. september næstkomandi.