Rúmlega 100 manns voru handteknir í mótmælum sem kom til í París í nótt eftir að úrslit fyrstu umferðar forsetakosninganna lágu fyrir. Sex lögreglumenn og þrír mótmælendur slösuðust í mótmælunum, en mótmælendur köstuðu flöskum í öryggissveitir, kveiktu í bílum og brutu rúður í verslunum.
AFP-fréttastofan hefur eftir lögreglu að 143 hafi verið handteknir vegna mótmælanna og 29 þeirra hafi gist fangageymslur lögreglu.
Hundruð ungmenna tóku þátt í mótmælum gegn því að kosið verði milli þeirra Marine Le Pen, formanns frönsku Þjóðfylkingarinnar, og fyrrverandi bankamannsins og óháða frambjóðandans Emmanuel Macron í síðari umferð forsetakosninganna. Voru mótmæli gegn „fasistum“ og „kapítalistum“ haldin í fjölda annarra borga í Frakklandi í gærkvöldi, m.a. í Lyon, Bordeaux, Nantes og Rennes.