Svo virðist sem fjármálaheimurinn fagni því að miðjumaðurinn Emmanuel Macron hafi fengið flest atkvæði í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna því bæði hlutabréf og evra hafa hækkað í verði í morgun.
Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 4,1% fljótlega eftir að viðskipti hófust í kauphöllinni í morgun og víða í Evrópu hækkuðu hlutabréfavísitölur en Macron er eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins ólíkt helsta keppinautnum, Marine le Pen.
Í Asíu hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur einnig en margir fylgdust grannt með kosningunum í Frakklandi í kjölfar kjörs Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Allt í einu var ekki lengur ólíklegt að næsti forseti Frakklands yrði popúlistinn Marine le Pen en lýðhyggja hefur mjög sótt í sig veðrið í Evrópu undanfarin misseri og ár.
Skoðanakannanir benda til þess að Macron fái einnig flest atkvæði í seinni umferðinni sem fram fer 7. maí.