Lögmaður Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta hefur lagt fram kæru vegna ummæla fransks sérfræðings, sem hann segir hafa hvatt til tilræðis gegn forsetanum.
Philippe Moreau Defarges lét ummælin falla í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Tyrklandi 16. apríl sl., þar sem forsetanum voru veitt aukin völd. Defarges, sem starfar við frönsku stofnunina í alþjóðsamskiptum, sagði að allar löglegar leiðir til að koma Erdogan frá væru nú ófærar og einu kostirnir í stöðunni væru borgarastyrjöld eða morð.
Defarges sagði í samtali við franska útvarpið á laugardag að aukið vald til handa Erdogan gæti aðeins endað með hörmungum. „Það verður annað hvort borgarastyrjöld eða önnur atburðarás... tilræði,“ sagði hann.
Huseyin Aydin, lögmaður Erdogan, sagði í kvörtun til ákæruvaldsins í Ankara að ummælin væru ekki skoðun heldur klár áeggjan um framkvæmd umrædds glæps.
Aydin sagði ummælin sýna andúð vestursins á Erdogan og sagði Defarges þurfa að gangast undir geðheilbrigðisrannsókn. Þá þyrfti að rannsaka tengsl hans við Kúrda og klerkinn Fethullah Gulen, sem Erdogan segir bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í júlí sl.
Defarges hefur beðist afsökunar á ummælum sínum og segir þau hafa verið klaufaleg og mögulega rangtúlkuð.