Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segir að margir sjómenn hafi ekki snúið aftur á sjó að verkfalli loknu.
„Það eru bara lægri tekjur núna en áður,“ segir Valmundur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Gengið er búið að lækka um 30% á einu ári og það bara helst í hendur við tekjur sjómanna og útgerðarmanna.“
Valmundur bætir við að áframhaldandi lágt fiskverð á markaði hjálpi heldur ekki til.
Hann segir að línubátarnir séu í mesta vandanum en línubátar landa í eigin vinnslur, þar sem fiskverðið er lægra. „Svo eru margir um borð og þá eru tekjurnar bara ekki nægilega góðar.“
Spurður hvort að bátar hafi ekki getað siglt út vegna manneklu segir hann að það hafi ekki gerst.
„Það er ekki komið þannig enn þá en það gengur illa að manna línubátana.“