Francois Hollande Frakklandsforseti hefur lýst yfir stuðningi við óháða frambjóðandann, Emmanuel Macron, sem mun keppa við Marine Le Pen frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar um forsetaembættið. Sagði Hollande framtíð Frakklands „stafa hætta af “ ef Le Pen sigri.
Í sjónvarpsávarpi sagði Hollande, eftir að úrslit fyrri umferðar forsetakosninganna lágu fyrir, að Frakkland ætti á hættu að einangrast og flosna upp úr Evrópusambandinu yrði Le Pen næsti forseti Frakklands.
Hollande sagði kaupmátt Frakka enn fremur líða fyrir það ef Le Pen næði kjöri, sömuleiðis myndu þúsundir starfa tapast og verðlag hækka léti Le Pen verða af þeim loforðum sínum að taka Frakkland úr Evrópusambandinu.
Sigur hægri öfgaafla myndi þá „kljúfa Frakkland“ á tímum sem það þyrfti að sýna einhug og samheldni gegn hryðjuverkum.
„Gagnvart slíkri hættu er ómögulegt að þegja eða sýna hlutleysi,“ sagði hann. „Fyrir mína parta, þá mun ég kjósa Emmanuel Macron.“
Macron var efnahagsráðherra í stjórn Hollandes á árunum 2014 til 2016, þegar hann sagði af sér embætti til að stofna eigin miðjuhreyfingu En Marche, sem útleggja má sem „Á ferðinni“.
Macron fékk 23,75% atkvæða í kosningunum í gær og Marine Le Pen fékk 21,53%. Kosið verður því milli þeirra tveggja í seinni umferðinni 7. maí næstkomandi.