Atkvæðatalningu í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna var ekki fyrr lokið, fyrr en kosningabaráttan fyrir síðari umferðina var hafin. Flest atkvæði fengu miðjumaðurinn Emmanuel Macron, sem fékk 23,75% atkvæða og Marine Le Pen, fulltrúi Þjóðernisflokksins, fékk 21,53.
„Emmanuel er ekki föðurlandsvinur. Hann einkavæddi fyrirtæki í eigu ríkisins. Hann gagnrýndi franska menningu,“ sagði Florian Philippot, einn helstu ráðgjafa Le Pen í samtali við BFM sjónvarpsstöðina.
Philippot sagði Macron vera „hrokafullan“ og að hann hefði, í þakkaræðu sinni í gærkvöldi, talað eins og „hann hefði þegar unnið forsetakosningarnar.“
„Það var vanvirðing við frönsku þjóðina,“ sagði Phillipot og sagði sigurkvöldverð Macrons á hinum þekkta veitingastað La Rotonde hafa jafngilt „bling-bling“ sýndarmennsku.
Skoðanakannanir benda til þess að Macron verði næsti forseti Frakklands og hafa fjölmargir stjórnmálamenn, bæði vinstri og hægri menn, þegar lýst yfir stuðningi við Macron í seinni umferðinni sem fram fer 7. maí.
Skoðanakönnun Harris bendir til þess að Macron fái 64% atkvæða í seinni umferðinni, en Le Pen 365 og skoðanakönnun Ipsos/Sopra Steria gaf svipaða niðurstöðu.