Franska þjóðernisflokknum Front National hefur haldist illa á formönnum undanfarna daga en þriðji formaðurinn á fjórum dögum tekur við í dag. Marine Le Pen hætti tímabundið sem formaður FN á mánudag en arftaki hennar missti starfið í morgun vegna ummæla um helförina.
Marine Le Pen greindi frá því á mánudag að hún ætlaði að víkja tímabundið úr embætti formanns en kosið verður á milli hennar og Emmanuel Macron í seinni umferð forsetakosninganna 7. maí.
Jean-François Jalkh, þingmaður FN á Evrópuþinginu, tók við sem formaður flokksins en í morgun var ákveðið að láta hann víkja og fá Steeve Briois, bæjarstjórann í Hénin-Beaumont, sem nýtur mikilla vinsælda til þess að taka við embætti formanns.
Fljótlega eftir að tilkynnt var um að Jalkh tæki við sem formaður voru rifjuð upp ummæli hans síðan fyrir nokkrum árum. Var haft eftir honum að hann teldi það tæknilega ómögulegt, „og ég ítreka - ómögulegt - að nota það [Zyklon B] við fjölda-útrýmingu. Hvers vegna? Vegna þess að þú þarft nokkra daga til þess að afmenga rými ... þar sem Zyklon B hefur verið notað,“ er haft eftir honum í viðtali sem dagblaðið La Croix birti á miðvikudag.
Zyklon B var notað af nasistum í útrýmingarbúðum þeirra í Póllandi og víðar. Jalkh neitar því að hafa sagt þetta.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þetta bull. Ég minnist þess ekki að hafa sagt þetta,“ sagði hann í viðtali við Le Monde. „Ég hef kannski verið í viðtali en þetta er ekki umræðuefni sem ég hef áhuga á að ræða.“
Aliot segir að Jalkh neiti því að hafa látið ummælin falla og að hann myndi höfða mál. Ekki kom hinsvegar fram gegn hverjum.
Jalkh, sem einnig er sakaður um að hafa beitt ólöglegum aðferðum við fjármögnun framboðs Le Pen árið 2012 en þá komst hún ekki í aðra umferð forsetakosninganna.