ESB lifir ekki af forsetatíð Le Pen

Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, á fundi með stuðningsmönnum.
Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, á fundi með stuðningsmönnum. AFP

Evrópusambandið mun ekki lifa það af kjósi Frakkar Marine Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar, sem næsta forseta landsins. Þetta er mat Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra Frakklands, en Cazeneuve lætur þessi orð falla í grein sem birt er í dagblaðinu Liberation á morgun.

„Brexit hefur þegar gert Evrópusambandið veikara og það mun ekki þola það nýja högg sem fylgir því ef til valda kemst í Frakklandi stjórn sem er opinskátt andsnúin Evrópusambandinu,“ sagði Cazeneuve.

Forsætisráðherrann ítrekaði einnig að sögn Reuters-fréttastofunnar það ákall sitt að kjósendur greiði atkvæði sitt miðjumanninum Emmanuel Macron, sem skoðanakannanir sýna að nýtur meira fylgis en Le Pen.

mbl.is