Le Pen sökuð um ritstuld

Le Pen er sökuð um að hafa stolið ræðu Franco­is …
Le Pen er sökuð um að hafa stolið ræðu Franco­is Fillon sem hún hélt 1. maí. AFP

Marine Le Pen, fram­bjóðandi frönsku Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar, er sökuð um ritstuld í ræðu sem hún hélt í gær 1. maí. Hún er sögð hafa stolið stórum hluta úr ræðu frambjóðandans Franco­is Fillon sem hann hélt 15. apríl, en Fillon komst ekki í seinni umferð forsetakosninganna. BBC greinir frá. 

Stór hluti ræðunnar sem hún hélt er sagður tekinn nánast orðréttur upp úr ræðu sem Fillon hélt 15. apríl. Le Pen hélt ræðu sína í Villepinte í norðurhluta Parísar í gær 1. maí.   

Fulltrúar frönsku Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar sögðu að hún væri að kinka kolli til Fillon, sem sýndi að hún væri „ekki heilög“.

Seinni umferð frönsku forsetakosninganna er á sunnudaginn, en þá mætast  Le Pen og Emmanuel Macron. 

Sjónvarpsrásin Ridicule TV á YouTube benti á ritstuldinn. Stuðningsmenn François Fillon komu stöðinni á laggirnar til að koma höggi á keppinaut hans, Macron, fyrir fyrri umferð forsetakosninganna. Það gekk ekki sem skyldi því Fillon féll úr leik í fyrri umferðinni.

mbl.is