Meirihluti þeirra sem kusu öfgavinstrimanninn Jean-Luc Melenchon í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna ætla að skila auðu í seinni umferðinni sem fram fer á sunnudag. Melenchon fékk 19,5% atkvæða í fyrri umferðinni.
Kosið verður á milli Emmanuel Macron og Marine Le Pen í seinni umferðinni og benda flestar skoðanakannanir til þess að Macron fari með sigur af hólmi.
Í kvöld mætast þau í sjónvarpskappræðum og verða umræðurnar sýndar beint á TF1 og France 2. Jafnframt er öðrum sjónvarpsstöðvum heimilað að sýna þáttinn, hvort heldur í heild eða hluta. Umræðurnar hefjast klukkan 21 að frönskum tíma, klukkan 19 að íslenskum tíma, og er áætlað að þátturinn taki 2 klukkustundir og 20 mínútur.
Margir vinstrimenn eru ósáttir við Macron og Melenchon hefur hingað til ekki viljað hvetja kjósendur sína til þess að kjósa hann í seinni umferðinni. Hann hefur aftur á móti beðið kjósendur sína að greiða Le Pen ekki atkvæði.
Í könnun sem stjórnmálaflokkur hans, Insoumise, lét gera og birt var í gær sýnir að um tveir þriðju kjósenda hans ætla ekki að greiða Macron atkvæði. 36,1% ætla að skila auðu. 29% ætla að sitja heima en 34,8% ætla að greiða Macron atkvæði. Ekki var gefinn möguleiki á að greiða Le Pen atkvæði í skoðanakönnuninni.