Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, mun koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna rannsóknarskýrslunnar um sölu Búnaðarbanka. Hann kemur þó ekki á fund nefndarinnar á morgun.
Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að Ólafur hefði óskað eftir því að koma á fund nefndarinnar á morgun. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður nefndarinnar, segir að ekki sé búið að ákveða tímasetningu fundarins.
„Við vorum fyrst og fremst að ræða skipulag og ferlana í því sem við ætlum að gera í framhaldinu í þessu stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Jón Steindór í samtali við mbl.is en nefndin fundaði um málið í morgun.
„Meðal annars var niðurstaðan sú að boða Ólaf á fund nefndarinnar. Það er ekki búið að ákveða tímasetningu en hann verður boðaður á fund nefndarinnar,“ segir Jón Steindór og bætir við að Ólafur sé einn partur af því sem þurfi að gera. „Hann er ekkert aðalatriði þessa máls.“
Áður hafði komið fram að Ólafur myndi ekki koma fyrir nefndina nema nýjar upplýsingar myndu koma fram. „Hann [Ólafur] hefur gefið til kynna að hann sé með nýjar upplýsingar. Það kemur þá í ljós.“