Macron hafði betur

Marine Le Pen og Emmanuel Macron tókust á í sjónvarpskappræðum …
Marine Le Pen og Emmanuel Macron tókust á í sjónvarpskappræðum í gærkvöldi. AFP

Áhorfendur á sjónavarpskappræður frönsku forsetaframbjóðendanna í gærkvöldi telja að Emmanuel Macron hafi staðið sig betur en Marine Le Pen, mótframbjóðandi hans. 

Samkvæmt frétt BBC móðguðu frambjóðendurnir andstæðinginn fram og til baka í tvær klukkustundir. Skiptust á skoðunum um hryðjuverkastarfsemi, efnahagslífið og stöðu Evrópu.

Franska sjónvarpsstöðin BFMTV birti eftir þáttinn niðurstöðu skoðanakönnunar þar sem fram kom að kjósendur voru sáttari við afstöðu Macron en Le Pen varðandi flest mál. 63% áhorfenda töldu að hann væri mun meira sannfærandi en hún. 

Le Pen sakaði Macron meðal annars um að vera frambjóðanda grimmilegrar alþjóðavæðingar. Hún gagnrýndi fjármál hans og bakgrunn. Að sögn Le Pen er Frakkland Macrons eins og verðbréfamiðlun þar sem allir berjast fyrir eigin hagsmunum.

Macron sakaði Le Pen aftur á móti um lygar og að hafa ekki boðið upp á nein haldbær málefni í kosningabaráttunni.

Báðir frambjóðendur vonuðust til þess að skoðanir þeirra næðu til þeirra 18% kjósenda sem ekki höfðu gert upp hug sinn í fyrstu umferðinni.

mbl.is