Franski forsetaframbjóðandinn Emmanuel Macron hefur lagt fram kæru vegna orðróms á netinu um að hann eigi leynilegan bankareikning á eyju í Karíbahafinu.
Marine Le Pen, mótframbjóðandi miðjumannsins Macron, vísaði í þessar fullyrðingar í sjónvarpskappræðum frambjóðendanna í gærkvöldi. BBC segir Macron hafa í kjölfarið gripið til þess ráðs að höfða mál gegn hægriöfgafréttasíðum vegna málsins.
„Við hikum ekki við að lögsækja hvern þann sem endurtekur þennan falska orðróm,“ hefur AFP-fréttastofan eftir aðstoðarmanni Macrons. Frakkar velja sér nýjan forseta á sunnudag og þykir Macron líklegri til að verða fyrir valinu en Le Pen.
„Ég vona að við eigum ekki eftir að komast að því að þú eigir aflandsreikning á Bahamas,“ sagði Le Pen í kappræðunum í gær. „Þetta er rógur,“ svaraði Macron.
Heimildir AFP innan franska dómskerfisins segja saksóknara í París hafa hafið rannsókn á málinu í kjölfar kvartana frá Macron.
Macron sjálfur fullyrti þá í samtali við franska útvarpsstöð í dag að „fölsku fréttirnar og lygarnar“ komi frá „vefsíðum sem tengist Rússum“.
Segja stuðningsmenn hans sum vefsvæðin hafa stutt Donald Trump Bandaríkjaforseta.