Ásakanir ganga á víxl

Afar heitt er í kolunum í Frakklandi þessa stundirnar og er það mat margra að kosningabaráttan hafi aldrei verið grimmari en í ár þegar hvorugur frambjóðandinn kemur úr hinum hefðbundnu flokkum. Ásakanir ganga á víxl og eggjum er kastað.

Seinni umferð forsetakosninganna fer fram á sunnudag og virðist miðjumaðurinn Emmanuel Macron hafa öruggt forskot á andstæðing sinn, þjóðernissinnan Marine Le Pen. Macron hefur ákveðið að höfða mál vegna orðróms um að hann eigi aflandsreikninga og Le Pen heitir stuðningsmönnum sínum því að hún muni færa þeim lyklana að Elysée höll. Frakkland þoli ekki fimm ár í viðbót af því sama.

Einhverjir íbúar Dol-de-Bretagne hafa hins vegar litla trú á Le Pen og köstuðu eggjum að henni - án þess að hæfa - þegar hún kom til bæjarins í gær.

Macron ákvað í gær að kæra Le Pen fyrir ummæli hennar um leynireikninga hans á Bahamas í sjónvarpskappræðum á miðvikudag. 16,5 milljónir fylgdust með útsendingunni.

„Ég vona að við komumst ekki að því hvað þú átt inni á aflandsreikningum á Bahamas,“ sagði Le Pen í kappræðunum en þær voru sennilega síðasta hálmstrá hennar til að saxa á 20% forskot keppinautarins. 

Macron sakar Le Pen um ærumeiðingar og saksóknari hóf rannsókn á því í gær hvaðan orðrómurinn eigi upptök sín. Kosningaskrifstofa Macron segir þetta kennslubókardæmi um lygafréttir og segja að þessu hafi verið dreift á Twitter í gegnum aðgang tengdum rússneskum fréttaveitum sem eru hliðhollar Vladimír Pútín, Rússlandsforseta. Eins hafi stuðningsmenn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, verið iðnir við kolann og dreift lyginni víða.

Le Pen sagði í útvarpsviðtali í morgun að rannsóknin beindist ekki að henni né heldur flokki hennar Front National. Hún hefði hvergi komið nærri við að dreifa orðróminum. Aftur á móti hafi ítrekað verið gerðar árásir á vefsíðu framboðs hennar og þar séu tölvuþrjótar tengdir öfgavinstrisinna sem var handtekinn í síðustu viku á ferðinni.

Í könnun sem Odoxa vann fyrir France Info kemur fram að allt bendi til þess að færri ætli sér að greiða atkvæði á sunnudag og að kjörsóknin verði sú minnsta síðan árið 1969. Einkum séu það kjósendur lengst til vinstri sem ætla að sitja heima.

Í annarri könnun sem unnin var af Elabe fyrir BFMTV og L'Express kemur fram að stuðningur við Macron hefur aukist og að hann fái 62% atkvæða en Le Pen 38%.

mbl.is