„Kannanir staðist glettilega vel“

Það er á brattan að sækja í dag fyrir Marine …
Það er á brattan að sækja í dag fyrir Marine Le Pen. AFP

„Stóru óvissuþættirnir eru kjörsókn og hversu margir skila auðu,“ segir Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi, um forsetakosningarnar sem fara fram í dag. Valið stend­ur á milli þeirra Emm­anu­el Macron og Mar­ine Le Pen. 

Frétt mbl.is: Kosið í Frakklandi

Kristján segir að rólegt sé yfir París. Helgin er löng vegna frídags á morgun og margir héldu út úr borginni. Þá banna frönsk lög banna hvers konar kosningaáróður og kosningafundi af hálfu frambjóðenda degi fyrir kosningar. 

Kosn­ingaþátt­taka í frönsku for­seta­kosn­ing­un­um mæld­ist 28,23% klukk­an 12 að frönsk­um tíma (klukk­an 10 að ís­lensk­um). Þetta er aðeins lélegra en á sama tíma í síðustu kosningum þegar hlutfallið var yfir 30%.“ 

Strax eftir fyrri umferðina bentu kannanir til þess að Macron myndi sigra með 60% atkvæða og hann hefur þokast upp eftir kappræðurnar á miðvikudaginn þar sem hann þótti koma betur úr þeim en mótframbjóðandinn Le Pen. Kristján segir að aðstæður í kosningunum séu öðruvísi en í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem kjör Trumps og Brexit fóru þvert á skoðanakannanir. 

„Það var þannig í fyrri umferðinni að kannanir stóðust glettilega vel. Úrslitin fóru nálægt því sem kannanir sýndu.“

Frétt mbl.is: Tölvupóstum Macrons lekið á netið

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi.
Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fyrir tveimur dögum var miklu magni tölvu­pósta sem full­yrt var að kæmu frá kosn­inga­skrif­stofu Emm­anu­el Macrons lekið á netið. Starfs­menn kosn­inga­bar­áttu Emm­anu­el Macron sögðu að í lekanum hefði verið sam­bland af stoln­um tölvu­póst­um for­setafram­bjóðand­ans og fölsuðum skjöl­um til að rugla fólk í rím­inu. 

„Þetta er einkennilegur lokahnykkur á óvenjulegri kosningabaráttu. Þetta gerist rétt áður en kosningabaráttunni formlega lýkur og við tekur tíminn þar sem frambjóðendur mega ekki hafa sig í frammi,“ segir Kristján. „Umfjöllun hefur verið í algjöru lágmarki og franska kosningaeftirlitið gaf út tilmæli um að fjölmiðlar fjölluðu ekki um þetta.“

mbl.is