Saksóknarar í Parísarborg hafa hafið rannsókn á tölvuinnbroti og leka á gögnum í eigu franska forsetaframbjóðandans Emmanuel Macron. Um 9 gígabætum af gögnum var stolið, m.a. tölvupóstum.
Þetta staðfesta heimildarmenn AFP-fréttastofunnar.
Gögnin voru birt á netinu á föstudag í bland við fölsuð skjöl.
Heimildarmaður AFP segir að rannsóknin hafi hafist um leið og kunnugt varð um gagnalekann.
Forsetakosningar fara fram í Frakklandi í dag. Samkvæmt lögum mega frambjóðendur ekki tjá sig svo skömmu fyrir kosningar og hefur Macron því ekki getað svarað fyrir sig í fjölmiðlum. Það hafa hins vegar talsmenn hans gert. Þeir segja að gögnin innihaldi engar upplýsingar um ólöglegt athæfi. Innbrotið hafi verið gert til að koma höggi á hann rétt fyrir kosningarnar.